Hrossasótt

Höfundur: Helga Gunnarsdóttir, dýralæknir hrossa

Mig langar aðeins að ræða um hrossasótt. Þetta orð vekur óhug hjá öllum hestamönnum en hugtakið er víðfemt og inniheldur mýgrút af mismunandi orsökum.
Hugtakið hrossasótt eða „colic“ er ekki sjúkdómsgreining, heldur þýðir það einungis að hestur er að sýna verkjaeinkenni sem oft, en ekki alltaf, eiga uppruna sinn frá meltingarkerfi. Þetta er mikilvægt að gera sér grein fyrir, þar sem nálgun, meðhöndlun og batahorfur geta verið afar mismunandi allt eftir greiningu.
Einkenni hrossasóttar geta verið mjög mismunandi og íslenski hesturinn er í ákveðnum sérflokki hvað það varðar, því sökum harðgeri hans, getur hann flokkast undir svokallaðan „hljóðan sjúkling“, þ.e hann getur verið mjög veikur án þess að sjúkdómseinkenni séu skýr. Allavega fyrir eigendur að meta. Almenn einkenni hrossasóttar geta verið, þó alls ekki öll

– Átlyst minnkar eða hverfur
– Krafs með framfótum
– Hestur „kíkir“ oft til hliðar, sparkar upp í kvið
– Taglsláttur
– Veltir sér ítrekað
– Vill liggja á hryggnum
– Liggur flatur, allir fætur frá líkama
– Fýlar grön, hristir haus
– Sullar í vatni
– Setur sig í stellingar til að míga, án þess þó að gera það
– Hundastelling, situr eins á hundur á afturfótum
– Stendur í stíu og hímir, haus hangir
– Sviti í nára eða blettasviti á hálsi, eða almennur útbreiddur sviti
– Gnístir tönnum

Þessi listi er ekki tæmandi en inniheldur algengustu einkenni hrossasóttar sem greind er útfrá meltingarfærum.

Hvað áttu að gera?
Þú átt alltaf að hringja á dýralækni og þú átt ALDREI að hefja neins konar meðhöndlun, hvorki með lyfjum eða óhefðbundnum aðferðum án samráðs við dýralækni. Það getur skyggt á alvarlegri sjúkdómseinkenni, valdið vandkvæðum á réttri greiningu og í versta falli gert einfaldan sjúkdóm flóknari og minni líkur á lækningu.
Dýralæknirinn mun koma og framkvæma læknisskoðun og meta áframhaldandi meðferð. Læknisskoðun þarf að vera nákvæm og dýralæknir þarf að fylgja sjúkling eftir þar til ljóst er að hann er orðinn góður, þar sem tiltölulega „meinlaus“ hrossasótt getur tekið skarpa beygju og orðið lífshættuleg á skömmum tíma.

En hvað veldur þessu?
Því er ekki alltaf auðvelt að svara. Meltingarfæri hestsins eru flókin og samanstanda af munni, vélinda, maga, smágirni, botnlanga, stórlanga, afturgörn og endaþarmi. Hvert og eitt þeirra getur verið vandamál, svo og öll heildin ef því er að skipta. Upphengi smágirnis og stórlanga leyfa mikla hreyfingu og þ.a.l. möguleika á allskyns snúningum og rangri legu í kviðarholi, sem aftur getur valdið uppsöfnun gass og fóðurs án möguleika á eðlilegu flæði. Maginn er tiltölulega lítill og þar sem möguleikar hestsins að „kasta upp“ er ekki til staðar, er hætta á offyllingu. Ómögulegt er í stuttum pistli að rekja alla þætti. En þættir sem geta valdið meiri hættu á hrossasótt eru, þó ekki tæmandi listi

– Fóðurbreytingar, þ.m.t að taka inn á hús
– Skemmt fóður
– Hestur kemst í fóðurbæti
– Slæm tannheilsa
– Ormaveiki, eða nýleg ormahreinsun
– Hestar sem ropa eða með aðra húsleiða
– Stress, orsakað m.a af neðantöldu;
– Öll röskun á rútínu, þ.e. fóðrun á mismunandi tímum, breytingar á 
þjálfun, ofþjálfun, ofþreyta, offóðrun, vanfóðrun 
– Langir flutningar á kerru
– Löng innistaða án möguleika á hreyfingu
– Löng vera úti í gerði, sérstaklega eftir átaksþjálfun
– Löng vera úti í gerði, sérstaklega í leiðinlegu veðri
– Löng vera úti í gerði, „djöfulgangur“ í gerðinu á milli hrossa
– Ekki nægur aðgangur að vatni
– Aðrir sjúkdómar

Þessi pistill leyfir ekki útskýringar á skoðun hrossasóttar hjá dýralækni eða mismunandi meðhöndlunum, allt frá einni skoðun til jafnvel skurðaðgerðar. Gróf skipting á hrossasótt tengdum meltingarfærum er að 85% tilfella leysist með „einfaldri“ meðhöndlun en 15% munu þurfa lengri og yfirgripsmeiri meðhöndlun og jafnvel skurðaðgerð. Pistillinn gefur ykkur umhugsunarefni um þessa „grýlu“ sem fylgir hestahaldi og mikilvægi þess að HRINGJA í dýralækni ef hesturinn ykkar sýnir eitthvað af ofantöldum einkennum og gefur ykkur kannski líka umhugsunarefni hvernig best er að halda hestinn til að minnka líkur á að hann fái hrossasótt.

Árvekni og næmi eru okkar bestu vinir!

Spatt

Höfundur: Helga Gunnarsdóttir, dýralæknir hesta

Spatt er leikmannsheiti flókins sjúkdóms sem er vel lýst í heimi dýralækninga en orsakir hans eru ekki að öllu kunnar. Í fræðunum er þessi sjúkdómur oft nefndur degenerative joint disease (DJD) og oft þegar hann er orðinn langt leiddur þá er talað um osteoarthritis (OA). 

Þegar við tölum um spatt á Íslandi þá erum við að tala um sjúkdóm í hækilliðum hestsins. Hækill er samheiti á fimm liðum í afturfæti, fjórum lítið hreyfanlegum liðum og einum mikið hreyfanlegum. Þessir liðir eru „bundnir“ saman með flóknu kerfi liðbanda. Hækilliðir og hné beygjast í samhæfingu, þ.e hestur getur ekki kreppt hækil án þess að kreppa hné og öfugt, þannig að stirðleiki og helti í hækillið leiðir fljótt „upp“ í hestinn og getur valdið stífni í spjaldi og baki á skömmum tíma.
Eins og í öllum „ekta liðum“ er brjósk á milli hækilliðanna. Í spöttuðum hesti fer þetta brjósk að eyðast. Yfirleitt er þessi brjóskeyðing á neðstu tveimur liðunum, sem eru hluti af lítið hreyfanlegum liðum. Brjóskeyðingin fer að byrja á einum stað í liðnum og getur haldist á einum ákveðnum stað í langan tíma. Líkaminn reynir að laga brjóskið, en þar sem nýtt brjósk myndast ekki eftir að það skemmist þá verður oft nýmyndun beins í kringum brjóskeyðinguna. Þetta ferli er sársaukafullt.

Í rannsókn sem gerð var kom í ljós að rétt rúmlega 30% íslenskra hesta sýna breytingar á röntgenmynd hækils sem mætti túlka sem spatt. Þessar breytingar voru í flestum tilfellum á báðum afturfótum og algengi jókst með aldri hestanna. Það var ekki hægt að sjá tengsl á milli alvarleika helti og breytingum á röntgenmyndum. Hins vegar mátti leiða líkur á því að ef hestar svöruðu svokölluðu beygiprófi (hækilliðurinn er krepptur í skamman tíma og helti metin) væri algengara að breytingar sæust á röntgenmyndum.

Einkenni spatts geta verið margvísleg. Almennur stirðleiki og stífni í baki er algeng kvörtun, þar sem spatt kemur oft fyrir í báðum afturfótum. Oft er erfitt að meta helti í þeim tilfellum, þar sem helti á báðum afturfótum getur verið erfitt að sjá. Því koma þessir hestar frekar inn sem „stífir í spjaldi“ og „aumir í baki“. Einnig geta verið kvartanir um að hesturinn hnjóti á framfótum, sé „þungur“ að framan, stífur á stökki eða eigi erfitt með að stökkva. Oft tala eigendur um að það sé dagamunur á hestunum, suma daga sé hesturinn stirður og hvefsinn en inn á milli er eins og ekkert sé að. Þessir hestar geta verið erfiðir í járningu, þar sem sumir þeirra eiga erfitt með að standa með krepptan hækil á meðan járnað er. Í sumum tilfellum er það líka hinn fóturinn sem stigið er í á meðan járnað er, vandamálið.
Nauðsynlegt er að vita að allar þessar kvartanir geta þýtt vandamál á öðrum sviðum.
Þetta segir okkur að nauðsynlegt er að skoða hestinn vel, fara vel ofan í þau vandamál sem gætu verið til staðar og kryfja upprunalega ástæðu fyrir því að hestamaður leiti til dýralæknis með hestinn.

Sögulega séð hafa spattaðir hestar ekki fengið að njóta vafans með tilliti til meðhöndlunar á sjúkdóminum. Vissulega er þetta sjúkdómur sem er ólæknandi og í mörgum tilfellum getur leitt til langvarandi helti. Hins vegar eru margar mýtur og skoðanir varðandi spattaða hesta. Við höfum öll heyrt söguna um spattaða hestinn sem nýttist í mörg ár og líka söguna um spattaða hestinn sem varð ónothæfur. Algengar setningar eins og;
„slepptu honum í eitt ár og sjáðu hvað gerist“, 
„þessir liðir geta gróið saman og hesturinn verður góður“,
„þessum hesti verður að lóga, það er hvort eð er ekkert hægt að gera“, 
eiga ekki alltaf við. Í samhenginu að tala um að liðir grói saman er verið að tala um kölkun á liðum sem eru spattaðir, þeir verða samangrónir og hætta þ.a.l að valda sársauka. Þarna spila ótal þættir inn í. Enn og aftur verðum við að horfa á einstaklinginn og hans sjúkdómsferil. Spyrja spurninga eins og;
-Hvað er hesturinn gamall?
-Hvernig er mín hestamennska?
-Hvernig er minn aðgangur að hesthúsi og hagabeit?
-Hvers krefst ég af þessum hesti?
-Hversu þjáður er hann í sínum sjúkdómi?
-Hversu fljótt hefur hann versnað?
-Hef ég möguleika á að sinna hesti með þennan sjúkdóm?
-Hef ég aðgang að dýralækni sem getur fylgt hestinum eftir og metið bata eða afturför?
-Er ég tilbúin/n til að leggja á mig það sem þarf til að fylgja hesti eftir með þennan sjúkdóm?
-Er þessi hestur söluvara?
Þessum spurningum þarf að svara samviskusamlega og heiðarlega í samráði við dýralækni, helst einhvern sem vinnur með hesta sem getur metið hestinn hlutlaust yfir jafnvel töluverðan tíma.

Meðferð er möguleg, en um leið þarf að gera sér grein fyrir því að þetta er ólæknandi sjúkdómur sem slíkur. Hugtakið „bíðum eftir að liðir gróa saman“ er afskaplega teygjanlegt og það er í rauninni ekki í boði að ætla að hvíla hestinn með þeim formerkjum að „gleyma“ honum í einhvern tíma. Hvíld þarf að vera „stjórnuð“ og fylgt eftir. Annað er að vissu leyti frestun að mínu mati. Hestur sem er haldinn ólæknandi sjúkdómi er ekki að fara að „endurhæfa“ sjálfan sig á hagabeit. Hann fer óhjákvæmilega inn í hreyfingu sem er honum „minnst“ sársaukafyllst og þar sem hækilliðirnir hafa áhrif á allar hreyfingar hestsins má leiða líkur að því að haltur spattaður hestur í hagabeit hleður upp öðrum stoðkerfisvandamálum sem koma þegar hann er í rangri hreyfingu.
Rétt hófstaða og járning er einnig mikilvæg. Spattaður hestur hefur oft breytt fótstöðu sinni til að vega á móti sársauka í hækli. Því þarf að aðstoða hann í að ná aftur réttri fótstöðu. Rúnuð tá og stuðningur við ytri hluta hófsins hjálpa til við „break-over“ á tá og einnig hafa sumir hestar gott af stuðningi við hæla. Þessa vinnu þarf að að gera í samvinnu við dýralækni og járningamann.
Rétt fóðrun er mikilvæg, ekki er gott að þessir hestar séu of feitir. Þeir hafa líka oft rýrnað í lendarvöðvum og ef þeir eru mishaltir er oft ósamræmi í vöðvauppbyggingu. Hestur sem er í hagabeit í frjálsri hreyfingu eykur á þetta misræmi.
Létt þjálfun í samræmi við getu hestsins er af hinu góða. Aðgangur að verkjastillingu og bólgueyðandi lyfjum er einnig möguleiki til að verkjastilla hestinn þegar hann á verri tímabil. Langvarandi verkir hafa mikil áhrif á geð og andlega heilsu hestsins. 
Meðhöndlun með steralyfjum inn í lið er vel þekkt og samþykkt sem nálgun á spatti. Einstaklingsmunur er á svörun við þessháttar meðferð og hún þarf oft að gerast með reglulegu millibili.
Aðrar nálganir á meðhöndlun við sjúkdóminum eru til en þessi pistill leyfir ekki útskýringar á þeim.

Í stuttu máli; spatt er langvarandi og ólæknandi sjúkdómur sem hefur ýmsar birtingarmyndir. Þetta þarf alls ekki að þýða endalok hestsins en nauðsynlegt er að vinna náið með dýralækninum til að finna það plan sem hentar hverjum og einum hesti.

Að kaupa hest

Höfundur: Helga Gunnarsdóttir, dýralæknir hesta

Hestamennska er lífsstíll, ekki áhugamál. Hestar eru ekki eins og mótorhjól eða golfsett, sem hægt er að setja inn í skúrinn og taka fram á tyllidögum. Að eiga hest er vinna, alla daga vikunnar, alla daga ársins. Að þessu sögðu langar mig að tala um þá ákvörðun að kaupa sér hest. Að mjög mörgu er að hyggja og ýmislegt sem drepið verður á hér, hentar ekki öllum. En gott er að velta þessum hlutum fyrir sér í rólegheitum og taka það út sem vekur áhuga og umhugsun.

Áður en farið er í það að skoða vænlegan hestakost er vert að spyrja sig eftirfarandi spurninga. Svara þeim í einrúmi heiðarlega og gagnrýnið. Að því loknu er hægt að leita sér ráða viturra manna eða kvenna.

– Hvernig hestamaður er ég? Er ég byrjandi eða vanur/vön? Á ég hesta fyrir? Er fjölskylda mín með í hestamennsku? Er ég að kaupa hest fyrir barnið mitt/unglinginn minn? Er ég tilbúin/n til að vera ábyrgi aðilinn í því samhengi? Vil ég stunda vetrarreiðmennsku og hvíla á sumrin? Eða öfugt? Eða bæði? Langar mig að eignast keppnishest? Ferðahest? Almennan útreiðahest? Ótaminn eða taminn hest? Hversu vel/mikið taminn? Hversu mikinn tíma hef ég til að stunda þessa íþrótt?
– Hef ég aðgang að hesthúsi? Þarf ég að hirða og gefa? Eða þarf ég að kaupa þá þjónustu? Þarf ég að kaupa hey og fóður?
– Hef ég aðgang að hagabeit? Þarf ég að sjá um hagabeitina, girðingarvinnu, ástand hagans o.s.frv? Hef ég möguleika á því að fylgjast með hestinum/hestunum mínum í haga? Kippt honum/þeim inn með litlum fyrirvara?
– Á ég reiðtygi? Annan útbúnað?
– Hef ég aðgang að hestaflutningum?
– Hef ég aðgang að járningamanni? Allan ársins hring?
– Vil ég láta aðstoða mig við þjálfun hestsins? Fara á námskeið?
– Hef ég aðgang að dýralækni? Allan sólarhringinn ef þarf, eða bý ég fjarri dýralæknaþjónustu? Get ég veitt mér þann „munað“ að borga fyrir dýralæknaþjónustu?
– Hef ég möguleika á því að tryggja hestinn/hestana mína?
– Langar mig að vera meðlimur í hestamannafélagi?

Eins og gefur að skilja leiða þessar spurningar líkum að því að hestamennska er dýr íþrótt. Og ekki endilega möguleikar á að stytta sér leið. Það er nauðsynlegt að vera viðbúin/n óvæntum kostnaði og að takast á við vandamál áður en þau verða hestinum til vansa. Hesturinn þarf að njóta vafans, ekki þú.

Eftir þessar vangaveltur er fyrst hægt að fara að velta fyrir sér kaupum á hestinum sjálfum. Þar vandast málið oft á tíðum. Hestaviðskipti hafa löngum verið sveipuð dulúð og ýmsar óskrifaðar reglur. Í lokin er þetta vissulega handsal á milli seljanda og kaupanda og báðir bera vissa ábyrgð á viðskiptunum. En það er ýmislegt hægt að gera til að gera þessi viðskipti ánægjuleg fyrir báða aðila.

– Hvað er ég tilbúin/n til að borga fyrir hest? Það er ekki til neitt sem heitir „gangverð“ á hesti. Það sem einum finnst ódýrt, finnst öðrum nánast galið. En vert er að hafa í huga að það kostar að rækta hest, ala upp hest, og temja hest. Allt er þetta „grunnkostnaður“ sem seljandi er jafnvel búin/n að leggja mikið í. Það er töluverður munur að kaupa ótaminn hest, úr illa skilgreindri ræktun og að kaupa hest sem er mikið og vel taminn. Hvað það varðar er líka nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að hestar eru afskaplega misjafnir að geðs- og upplagi og það sem atvinnumaður getur náð úr hesti er alls ekki það sama og minna vanur getur náð úr honum. Þar þurfa menn að gera sér grein fyrir sínum takmörkunum. Eins erfitt og það getur verið.
– Kaupandi þarf að vera óhræddur að spyrja seljanda um hestinn. Fara yfir sögu hestsins, eigandaskipti, sjúkdómasögu og núverandi notkun. Þar þarf væntanlegur kaupandi líka að vera heiðarlegur við sjálfan sig og gera ekki óraunhæfar væntingar til sjálfs síns sem hestamanns og einnig til hestsins. Gott er að fá til sín óháðan aðila sem menn/konur bera traust til sem hefur ekki beina aðkomu að sölunni eða kaupunum.
– Vil ég láta söluskoða hestinn? Hvað er söluskoðun? Hvaða væntingar hef ég til þeirrar skoðunar? Söluskoðun er gríðarlega umdeild og heilu ráðstefnur dýralækna eru haldnar um hana. Á Íslandi er ekki til nein heildarstefna er varðar söluskoðanir. Þumalputtareglan á að vera sú að dýralæknir framkvæmir söluskoðun í umboði kaupanda. Auðvitað getur seljandi látið framkvæma söluskoðun og mikil hefð er fyrir því hér á landi. En í því samhengi verður að skilja að viðskiptin eru þá á milli dýralæknis og seljanda, ekki öfugt og trúnaðarsambandið er eftir því. Ef dýralæknir framkvæmir söluskoðun í umboði kaupanda er sambandið annað og væntanlegur kaupandi hefur meira rými til að mynda sér sjálfur skoðun um að kaupa hestinn með þeim göllum (ef einhverjir eru) sem fylgja með ráðleggingum dýralæknis. Í því samhengi er hægt að ákveða umfang söluskoðunar, hversu nákvæmlega hesturinn er metinn. Söluskoðun getur verið allt frá því að vera einföld heilbrigðisskoðun sem tekur stuttan tíma, út í það að vera mjög yfirgripsmikil og nákvæm, jafnvel tekið nokkra daga. Dýralæknir er ekki spámaður og hann getur aldrei vottað hest fyrir öllum göllum eða framtíðarvandamálum. Það segir sig sjálft, og nauðsynlegt er fyrir kaupanda að gera sér grein fyrir takmörkunum skoðunar. Hesturinn er vottaður fyrir þann dag sem hann er skoðaður og vottaður fyrir þeim atriðum sem eru skoðuð. Ef gallar koma í ljós á degi skoðunar má ræða þau atriði, hvort þau séu það alvarleg að hestur sé ekki söluvara á umtöluðum degi, eða hvort hann sé gallaður til frambúðar. Ef þetta er galli sem hægt er að lagfæra, má ráðleggja með það en þetta er alltaf áhætta sem kaupandi tekur og þarf að ákveða sjálf/ur. Hinsvegar er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að því nákvæmari sem söluskoðun er, því meiri líkur er á að eitthvað finnist. Það þurfa ekki endilega að vera hlutir sem verðfella hestinn eða hlutir sem seljandi hefur haft hugmynd um, en takmarkanir dýralækna að gefa „kristalkúlu“ spá eru miklar. Kostnaður söluskoðunar er að sjálfsögðu í samhengi við umfang hennar. Ef mikið er í húfi er sjálfsagt að fá annað álit dýralæknis á söluskoðun. Ekki skal krefja dýralækna um að „dæma“ á milli, heldur einungis að fá álitið. Kaupandi þarf alltaf að vera ábyrgur sinna kaupa.
– Ef kaup/skipti ganga í gegn er nauðsynlegt að ganga strax frá eigendaskiptum í Worldfeng. Ef hestur hefur ekki verið söluskoðaður er nauðsynlegt að huga að því að „réttur“ hestur sé keyptur, örmerki passi við keyptan hest og að milliganga sé hnökralaus. Það myndast oft „tómarúm“ á milli kaupanda og seljanda þar sem ýmislegt getur gengið á. En mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að hestur er undir ábyrgð þess sem skráður er fyrir honum. Jafnvel þó viðskipti hafa gengið í gegn.

Að þessu sögðu er ekki vandalaust að kaupa sér hest. Hestur er ekki bíll eða hjól. En ýmislegt er að hægt að gera til að hesturinn sem keyptur er sé sannarlega draumahesturinn og að hann muni veita þér gleði og ánægju um ókomin ár. Kaupandi tekur lokaákvörðun og honum ber að skilja að spurningar sem eru ekki spurðar í kaupferlinu er ekki endilega hægt að krefjast svara við eftir að hestur er keyptur. Það þarf þá að vera samningsatriði á milli kaupanda og seljanda.

Ég óska ykkur góðra stunda í góða veðrinu með gæðingana ykkar.

Hvað ræður einkunn dómara fyrir hraðabreitingar í töltkeppni?

Halldór Gunnar Victorsson, formaður Hestaíþróttadómarafélags Íslands.

Dómarar vinna eftir leiðara sem finna má á vefsíðunni www. feif.org

Hér má sjá leiðarann fyrir hraðabreitingar í tölti

Vefslóð HÍDÍ: http://www.hidi.is/

Tannröspun

Höfundur: Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir

Það er algengur misskilningur að tennur hesta vaxi alla ævi þeirra. Sannleikurinn er sá að glerungurinn er fullmyndaður um það leyti sem hver tönn er tekin í notkun. Fyrsta varanlega tönnin er komin í gagnið þegar trippi eru veturgömul en sú síðasta við 5 vetra aldurinn. Þá hefst rótarvöxtur þeirra en ekki bætist við glerunginn. Tönnin er þá að mestu ofan í tannbeininu en hún gengur upp úr því smám saman í hlutfalli við slit tannarinnar. Glerungurinn þarf að endast hestunum alla ævi og án hans geta þeir ekki þrifist.

Jaxlar hesta eiga að vera hrjúfir og með brodda á jöðrunum. Þeir eru harðasti hluti tannanna og takmarka slit þeirra. Sýnt hefur verið fram á  að séu þeir raspaðir slitna aðrir hlutar tannanna hraðar.

Óeðlilega miklir broddar geta verið til óþæginda fyrir hesta. Þeir eiga  alla jafna rætur að rekja til annarra undirliggjandi vandamála sem áríðandi er að greina og meðhöndla. Annars er hætt við að áhrif röspunar verði tímabundin.

Því fer fjarri að það geri hestum gott að slétta framtennur þeirra. Útlit þessara tanna endurspeglar flókna ferla í líffræði munnsins og getur gefið vísbendingar um að þar sé ekki allt með felldu. Misslit framtanna er ekki þekkt sem frumorsök. Minniháttar ójöfnur eru fullkomlega eðlilegar.

Inni í tönnunum er holrúm með taugum og æðum. Áríðandi er að ekki sé opnað fyrir aðgang baktería að tannholinu en það mun með tíð og tíma valda rótarbólgu með tilheyrandi sársauka og í flestum tilfellum kosta hestana lífið. Þar sem glerungurinn er þynnstur eru ekki nema 3 mm í tannholið. 

Sýkingar í tönnum eru lengi að búa um sig og valda ekki alltaf greinilegum einkennum. Því sjá hestaeigendur ekki auðveldlega sambandið milli tannraspana og varanlegra tannskemmda. Hestar með tannskemmdir éta oft hægar en önnur hross og halda illa holdum. Þeir geta orðið mjög erfiðir til reiðar, vondir í beisli, og stjórnlausir. Oft eru misskilin viðbrögð eigenda slíkra hesta að raspa tennur þeirra. Algengasta sjúkdómsgreiningin í munni íslenskra hesta eru tannholdssjúkdómar sem gjarnan tengjast losi á tönnum. Í slíkum tilfellum gera tannraspanir illt verra.

Tilhneiging hefur verið til að ofmeta þátt tannbrodda sem orsök særinda í munni reiðhesta. Seinni tíma rannsóknir sem og kerfisbundnar skoðanir á munni íslenskra keppnishesta styðja ekki þá kenningu.

Við notkun á hestum til reiðar ber okkur að aðlaga búnað og reiðmennsku að munni hestsins, þannig að ekki hljótist skaði af, fremur en að sverfa tennur hestsins.

Velferð hrossa á útigangi

Höfundur: Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir

Íslenski hesturinn hefur lifað með íslenskri náttúru um aldir og er sérlega vel í stakk búinn til að ganga úti allan ársins hring. Helstu kostir útigangs felast í frelsinu þar sem náttúrulegt atferli hrossa fær að njóta sín. Líkamlegum þörfum þeirra er einnig betur mætt á útigangi og ber þar fyrst að nefna hreyfinguna sem er grundvallarþörf hjá öllum hrossum en mikilvægust ungviðinu sem er að vaxa og byggja upp stoðkerfið. Næringarnám hrossa verður gjarnan fjölbreyttara og heilbrigðara og hrossin eiga auðveldara með hitastjórnun enda búin þykkum vetrarfeldi.

Því er æskilegt að hross sem ekki eru notuð til reiðar séu haldin á útigangi og á það ekki síður við um folöld en önnur hross. Varasamt getur verið að hýsa fylfullar hryssur og mjög óheppilegt að hryssur kasti í aðþrengdu umhverfi hesthúsa.

Helsti mælikvarðinn á velferð hossa á útigangi er holdafarið en auk þess er litið til hárafars, almenns heilbrigðis og upplits hrossanna. Óhjákvæmilegt er að fóðurskortur eða illur aðbúnaður komi með tímanum niður á holdafari og útliti hrossanna. Til að tryggja samræmt mat á holdafari hrossa hefur verið gefinn út holdastigunarkvarði sem unnið hefur verið eftir undanfarinn áratug og reynst vel.

Fóður skal að magni, gæðum og næringarinnihaldi fullnægja þörfum hrossa til vaxtar, viðhalds og notkunar. Þetta kallar á flokkun hrossa eftir fóðurþörfum þeirra en þær ráðast einkum af framleiðslu (vexti, fósturþroska, mjólkurframleiðslu) og holdafari. Mjólkandi hryssur og hross í vexti eru í hvað mestri þörf fyrir fóður á meðan fullorðin geldhross í góðum holdum þrífast vel af litlu. Engin krafa er um að síðastnefndi hópurinn standi í heyi enda leiðir það fljótt til offóðrunar. Óásættanlegt er þó að hross séu haldin í svelti, án þess að hafa nokkurn haga, þó það geti verið óhjákvæmilegt tímabundið á meðan stórviðri ganga yfir. Umráðamenn hrossa þurfa að fylgjast vel með veðurspám og gefa með eins til tveggja sólarhringa fyrirvara fyrir slík áhlaup, þannig að hrossin séu ágætlega södd og hafi gagn af hitamynduninni sem verður við meltingu gróffóðurs, þegar veðrið skellur á. Þá þarf ekki að óttast að þau standi ekki af sér stórviðri enda eru afföll fáheyrð. 

Hross skulu hafa aðgang að hreinu og ómenguðu drykkjarvatni eða snjó. Bregðast þarf við í langvarandi frostatíð á snjólausri jörð eða hörðu hjarni og útvega hrossum vatn.

Í reglugerð um velferð hrossa er gert ráð fyrir að hross á útigangi hafi aðgang að skjóli allan ársins hring. Á það reynir ekki síst um vor og haust þegar hross eru ekki í fullum vetrarfeldi og allra veðra er von. Æskilegt er að hross á útigangi séu í landmiklum girðingum með beit og fjölbreyttu landslagi sem býður upp á náttúrulegt skjól, svo sem holt og hæðir, lautir, hvilftir, háa skurðruðninga, kletta og trjágróður. Þar sem hross eru haldin á berangri skal koma upp manngerðu skjóli.

Við eftirlit og mat á aðbúnaði hrossa á útigangi, svo sem hrossaskjóli, skal litið heildstætt á þá þætti sem hafa áhrif á velferð hjarðarinnar svo sem fóðurástand, hárafar og annað heilbrigði, landgæði, skjól og veðurfar á svæðinu. Þar sem hross eru grönn (undir reiðhestholdum) skal gerð ríkari krafa um gæði hrossaskjóla, samhliða bættri fóðrun. Að sama skapi er krafan vægari ef hrossin eru í mjög góðu standi.


Hægt tölt, hvað ræður einkunn dómara?

Halldór Gunnar Victorsson, formaður Hestaíþróttadómarafélags Íslands.

Dómarar vinna eftir leiðara sem finna má á vefsíðunni www. feif.org

Hér má sjá leiðarann fyrir hægt tölt

Vefslóð HÍDÍ: http://www.hidi.is/