Tannröspun

Höfundur: Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir

Það er algengur misskilningur að tennur hesta vaxi alla ævi þeirra. Sannleikurinn er sá að glerungurinn er fullmyndaður um það leyti sem hver tönn er tekin í notkun. Fyrsta varanlega tönnin er komin í gagnið þegar trippi eru veturgömul en sú síðasta við 5 vetra aldurinn. Þá hefst rótarvöxtur þeirra en ekki bætist við glerunginn. Tönnin er þá að mestu ofan í tannbeininu en hún gengur upp úr því smám saman í hlutfalli við slit tannarinnar. Glerungurinn þarf að endast hestunum alla ævi og án hans geta þeir ekki þrifist.

Jaxlar hesta eiga að vera hrjúfir og með brodda á jöðrunum. Þeir eru harðasti hluti tannanna og takmarka slit þeirra. Sýnt hefur verið fram á  að séu þeir raspaðir slitna aðrir hlutar tannanna hraðar.

Óeðlilega miklir broddar geta verið til óþæginda fyrir hesta. Þeir eiga  alla jafna rætur að rekja til annarra undirliggjandi vandamála sem áríðandi er að greina og meðhöndla. Annars er hætt við að áhrif röspunar verði tímabundin.

Því fer fjarri að það geri hestum gott að slétta framtennur þeirra. Útlit þessara tanna endurspeglar flókna ferla í líffræði munnsins og getur gefið vísbendingar um að þar sé ekki allt með felldu. Misslit framtanna er ekki þekkt sem frumorsök. Minniháttar ójöfnur eru fullkomlega eðlilegar.

Inni í tönnunum er holrúm með taugum og æðum. Áríðandi er að ekki sé opnað fyrir aðgang baktería að tannholinu en það mun með tíð og tíma valda rótarbólgu með tilheyrandi sársauka og í flestum tilfellum kosta hestana lífið. Þar sem glerungurinn er þynnstur eru ekki nema 3 mm í tannholið. 

Sýkingar í tönnum eru lengi að búa um sig og valda ekki alltaf greinilegum einkennum. Því sjá hestaeigendur ekki auðveldlega sambandið milli tannraspana og varanlegra tannskemmda. Hestar með tannskemmdir éta oft hægar en önnur hross og halda illa holdum. Þeir geta orðið mjög erfiðir til reiðar, vondir í beisli, og stjórnlausir. Oft eru misskilin viðbrögð eigenda slíkra hesta að raspa tennur þeirra. Algengasta sjúkdómsgreiningin í munni íslenskra hesta eru tannholdssjúkdómar sem gjarnan tengjast losi á tönnum. Í slíkum tilfellum gera tannraspanir illt verra.

Tilhneiging hefur verið til að ofmeta þátt tannbrodda sem orsök særinda í munni reiðhesta. Seinni tíma rannsóknir sem og kerfisbundnar skoðanir á munni íslenskra keppnishesta styðja ekki þá kenningu.

Við notkun á hestum til reiðar ber okkur að aðlaga búnað og reiðmennsku að munni hestsins, þannig að ekki hljótist skaði af, fremur en að sverfa tennur hestsins.