Hrossasótt

Höfundur: Helga Gunnarsdóttir, dýralæknir hrossa

Mig langar aðeins að ræða um hrossasótt. Þetta orð vekur óhug hjá öllum hestamönnum en hugtakið er víðfemt og inniheldur mýgrút af mismunandi orsökum.
Hugtakið hrossasótt eða „colic“ er ekki sjúkdómsgreining, heldur þýðir það einungis að hestur er að sýna verkjaeinkenni sem oft, en ekki alltaf, eiga uppruna sinn frá meltingarkerfi. Þetta er mikilvægt að gera sér grein fyrir, þar sem nálgun, meðhöndlun og batahorfur geta verið afar mismunandi allt eftir greiningu.
Einkenni hrossasóttar geta verið mjög mismunandi og íslenski hesturinn er í ákveðnum sérflokki hvað það varðar, því sökum harðgeri hans, getur hann flokkast undir svokallaðan „hljóðan sjúkling“, þ.e hann getur verið mjög veikur án þess að sjúkdómseinkenni séu skýr. Allavega fyrir eigendur að meta. Almenn einkenni hrossasóttar geta verið, þó alls ekki öll

– Átlyst minnkar eða hverfur
– Krafs með framfótum
– Hestur „kíkir“ oft til hliðar, sparkar upp í kvið
– Taglsláttur
– Veltir sér ítrekað
– Vill liggja á hryggnum
– Liggur flatur, allir fætur frá líkama
– Fýlar grön, hristir haus
– Sullar í vatni
– Setur sig í stellingar til að míga, án þess þó að gera það
– Hundastelling, situr eins á hundur á afturfótum
– Stendur í stíu og hímir, haus hangir
– Sviti í nára eða blettasviti á hálsi, eða almennur útbreiddur sviti
– Gnístir tönnum

Þessi listi er ekki tæmandi en inniheldur algengustu einkenni hrossasóttar sem greind er útfrá meltingarfærum.

Hvað áttu að gera?
Þú átt alltaf að hringja á dýralækni og þú átt ALDREI að hefja neins konar meðhöndlun, hvorki með lyfjum eða óhefðbundnum aðferðum án samráðs við dýralækni. Það getur skyggt á alvarlegri sjúkdómseinkenni, valdið vandkvæðum á réttri greiningu og í versta falli gert einfaldan sjúkdóm flóknari og minni líkur á lækningu.
Dýralæknirinn mun koma og framkvæma læknisskoðun og meta áframhaldandi meðferð. Læknisskoðun þarf að vera nákvæm og dýralæknir þarf að fylgja sjúkling eftir þar til ljóst er að hann er orðinn góður, þar sem tiltölulega „meinlaus“ hrossasótt getur tekið skarpa beygju og orðið lífshættuleg á skömmum tíma.

En hvað veldur þessu?
Því er ekki alltaf auðvelt að svara. Meltingarfæri hestsins eru flókin og samanstanda af munni, vélinda, maga, smágirni, botnlanga, stórlanga, afturgörn og endaþarmi. Hvert og eitt þeirra getur verið vandamál, svo og öll heildin ef því er að skipta. Upphengi smágirnis og stórlanga leyfa mikla hreyfingu og þ.a.l. möguleika á allskyns snúningum og rangri legu í kviðarholi, sem aftur getur valdið uppsöfnun gass og fóðurs án möguleika á eðlilegu flæði. Maginn er tiltölulega lítill og þar sem möguleikar hestsins að „kasta upp“ er ekki til staðar, er hætta á offyllingu. Ómögulegt er í stuttum pistli að rekja alla þætti. En þættir sem geta valdið meiri hættu á hrossasótt eru, þó ekki tæmandi listi

– Fóðurbreytingar, þ.m.t að taka inn á hús
– Skemmt fóður
– Hestur kemst í fóðurbæti
– Slæm tannheilsa
– Ormaveiki, eða nýleg ormahreinsun
– Hestar sem ropa eða með aðra húsleiða
– Stress, orsakað m.a af neðantöldu;
– Öll röskun á rútínu, þ.e. fóðrun á mismunandi tímum, breytingar á 
þjálfun, ofþjálfun, ofþreyta, offóðrun, vanfóðrun 
– Langir flutningar á kerru
– Löng innistaða án möguleika á hreyfingu
– Löng vera úti í gerði, sérstaklega eftir átaksþjálfun
– Löng vera úti í gerði, sérstaklega í leiðinlegu veðri
– Löng vera úti í gerði, „djöfulgangur“ í gerðinu á milli hrossa
– Ekki nægur aðgangur að vatni
– Aðrir sjúkdómar

Þessi pistill leyfir ekki útskýringar á skoðun hrossasóttar hjá dýralækni eða mismunandi meðhöndlunum, allt frá einni skoðun til jafnvel skurðaðgerðar. Gróf skipting á hrossasótt tengdum meltingarfærum er að 85% tilfella leysist með „einfaldri“ meðhöndlun en 15% munu þurfa lengri og yfirgripsmeiri meðhöndlun og jafnvel skurðaðgerð. Pistillinn gefur ykkur umhugsunarefni um þessa „grýlu“ sem fylgir hestahaldi og mikilvægi þess að HRINGJA í dýralækni ef hesturinn ykkar sýnir eitthvað af ofantöldum einkennum og gefur ykkur kannski líka umhugsunarefni hvernig best er að halda hestinn til að minnka líkur á að hann fái hrossasótt.

Árvekni og næmi eru okkar bestu vinir!