Spatt
Höfundur: Helga Gunnarsdóttir, dýralæknir hesta
Spatt er leikmannsheiti flókins sjúkdóms sem er vel lýst í heimi dýralækninga en orsakir hans eru ekki að öllu kunnar. Í fræðunum er þessi sjúkdómur oft nefndur degenerative joint disease (DJD) og oft þegar hann er orðinn langt leiddur þá er talað um osteoarthritis (OA).
Þegar við tölum um spatt á Íslandi þá erum við að tala um sjúkdóm í hækilliðum hestsins. Hækill er samheiti á fimm liðum í afturfæti, fjórum lítið hreyfanlegum liðum og einum mikið hreyfanlegum. Þessir liðir eru „bundnir“ saman með flóknu kerfi liðbanda. Hækilliðir og hné beygjast í samhæfingu, þ.e hestur getur ekki kreppt hækil án þess að kreppa hné og öfugt, þannig að stirðleiki og helti í hækillið leiðir fljótt „upp“ í hestinn og getur valdið stífni í spjaldi og baki á skömmum tíma.
Eins og í öllum „ekta liðum“ er brjósk á milli hækilliðanna. Í spöttuðum hesti fer þetta brjósk að eyðast. Yfirleitt er þessi brjóskeyðing á neðstu tveimur liðunum, sem eru hluti af lítið hreyfanlegum liðum. Brjóskeyðingin fer að byrja á einum stað í liðnum og getur haldist á einum ákveðnum stað í langan tíma. Líkaminn reynir að laga brjóskið, en þar sem nýtt brjósk myndast ekki eftir að það skemmist þá verður oft nýmyndun beins í kringum brjóskeyðinguna. Þetta ferli er sársaukafullt.
Í rannsókn sem gerð var kom í ljós að rétt rúmlega 30% íslenskra hesta sýna breytingar á röntgenmynd hækils sem mætti túlka sem spatt. Þessar breytingar voru í flestum tilfellum á báðum afturfótum og algengi jókst með aldri hestanna. Það var ekki hægt að sjá tengsl á milli alvarleika helti og breytingum á röntgenmyndum. Hins vegar mátti leiða líkur á því að ef hestar svöruðu svokölluðu beygiprófi (hækilliðurinn er krepptur í skamman tíma og helti metin) væri algengara að breytingar sæust á röntgenmyndum.
Einkenni spatts geta verið margvísleg. Almennur stirðleiki og stífni í baki er algeng kvörtun, þar sem spatt kemur oft fyrir í báðum afturfótum. Oft er erfitt að meta helti í þeim tilfellum, þar sem helti á báðum afturfótum getur verið erfitt að sjá. Því koma þessir hestar frekar inn sem „stífir í spjaldi“ og „aumir í baki“. Einnig geta verið kvartanir um að hesturinn hnjóti á framfótum, sé „þungur“ að framan, stífur á stökki eða eigi erfitt með að stökkva. Oft tala eigendur um að það sé dagamunur á hestunum, suma daga sé hesturinn stirður og hvefsinn en inn á milli er eins og ekkert sé að. Þessir hestar geta verið erfiðir í járningu, þar sem sumir þeirra eiga erfitt með að standa með krepptan hækil á meðan járnað er. Í sumum tilfellum er það líka hinn fóturinn sem stigið er í á meðan járnað er, vandamálið.
Nauðsynlegt er að vita að allar þessar kvartanir geta þýtt vandamál á öðrum sviðum.
Þetta segir okkur að nauðsynlegt er að skoða hestinn vel, fara vel ofan í þau vandamál sem gætu verið til staðar og kryfja upprunalega ástæðu fyrir því að hestamaður leiti til dýralæknis með hestinn.
Sögulega séð hafa spattaðir hestar ekki fengið að njóta vafans með tilliti til meðhöndlunar á sjúkdóminum. Vissulega er þetta sjúkdómur sem er ólæknandi og í mörgum tilfellum getur leitt til langvarandi helti. Hins vegar eru margar mýtur og skoðanir varðandi spattaða hesta. Við höfum öll heyrt söguna um spattaða hestinn sem nýttist í mörg ár og líka söguna um spattaða hestinn sem varð ónothæfur. Algengar setningar eins og;
„slepptu honum í eitt ár og sjáðu hvað gerist“,
„þessir liðir geta gróið saman og hesturinn verður góður“,
„þessum hesti verður að lóga, það er hvort eð er ekkert hægt að gera“,
eiga ekki alltaf við. Í samhenginu að tala um að liðir grói saman er verið að tala um kölkun á liðum sem eru spattaðir, þeir verða samangrónir og hætta þ.a.l að valda sársauka. Þarna spila ótal þættir inn í. Enn og aftur verðum við að horfa á einstaklinginn og hans sjúkdómsferil. Spyrja spurninga eins og;
-Hvað er hesturinn gamall?
-Hvernig er mín hestamennska?
-Hvernig er minn aðgangur að hesthúsi og hagabeit?
-Hvers krefst ég af þessum hesti?
-Hversu þjáður er hann í sínum sjúkdómi?
-Hversu fljótt hefur hann versnað?
-Hef ég möguleika á að sinna hesti með þennan sjúkdóm?
-Hef ég aðgang að dýralækni sem getur fylgt hestinum eftir og metið bata eða afturför?
-Er ég tilbúin/n til að leggja á mig það sem þarf til að fylgja hesti eftir með þennan sjúkdóm?
-Er þessi hestur söluvara?
Þessum spurningum þarf að svara samviskusamlega og heiðarlega í samráði við dýralækni, helst einhvern sem vinnur með hesta sem getur metið hestinn hlutlaust yfir jafnvel töluverðan tíma.
Meðferð er möguleg, en um leið þarf að gera sér grein fyrir því að þetta er ólæknandi sjúkdómur sem slíkur. Hugtakið „bíðum eftir að liðir gróa saman“ er afskaplega teygjanlegt og það er í rauninni ekki í boði að ætla að hvíla hestinn með þeim formerkjum að „gleyma“ honum í einhvern tíma. Hvíld þarf að vera „stjórnuð“ og fylgt eftir. Annað er að vissu leyti frestun að mínu mati. Hestur sem er haldinn ólæknandi sjúkdómi er ekki að fara að „endurhæfa“ sjálfan sig á hagabeit. Hann fer óhjákvæmilega inn í hreyfingu sem er honum „minnst“ sársaukafyllst og þar sem hækilliðirnir hafa áhrif á allar hreyfingar hestsins má leiða líkur að því að haltur spattaður hestur í hagabeit hleður upp öðrum stoðkerfisvandamálum sem koma þegar hann er í rangri hreyfingu.
Rétt hófstaða og járning er einnig mikilvæg. Spattaður hestur hefur oft breytt fótstöðu sinni til að vega á móti sársauka í hækli. Því þarf að aðstoða hann í að ná aftur réttri fótstöðu. Rúnuð tá og stuðningur við ytri hluta hófsins hjálpa til við „break-over“ á tá og einnig hafa sumir hestar gott af stuðningi við hæla. Þessa vinnu þarf að að gera í samvinnu við dýralækni og járningamann.
Rétt fóðrun er mikilvæg, ekki er gott að þessir hestar séu of feitir. Þeir hafa líka oft rýrnað í lendarvöðvum og ef þeir eru mishaltir er oft ósamræmi í vöðvauppbyggingu. Hestur sem er í hagabeit í frjálsri hreyfingu eykur á þetta misræmi.
Létt þjálfun í samræmi við getu hestsins er af hinu góða. Aðgangur að verkjastillingu og bólgueyðandi lyfjum er einnig möguleiki til að verkjastilla hestinn þegar hann á verri tímabil. Langvarandi verkir hafa mikil áhrif á geð og andlega heilsu hestsins.
Meðhöndlun með steralyfjum inn í lið er vel þekkt og samþykkt sem nálgun á spatti. Einstaklingsmunur er á svörun við þessháttar meðferð og hún þarf oft að gerast með reglulegu millibili.
Aðrar nálganir á meðhöndlun við sjúkdóminum eru til en þessi pistill leyfir ekki útskýringar á þeim.
Í stuttu máli; spatt er langvarandi og ólæknandi sjúkdómur sem hefur ýmsar birtingarmyndir. Þetta þarf alls ekki að þýða endalok hestsins en nauðsynlegt er að vinna náið með dýralækninum til að finna það plan sem hentar hverjum og einum hesti.